Viljum vera ofar en þetta

Álfhildur Rósa Kjartansdóttir, fyrirliði Þróttar.
Álfhildur Rósa Kjartansdóttir, fyrirliði Þróttar. mbl.is/Óttar Geirsson

Þrótti úr Reykjavík er spáð sjötta sæti í Bestu deild kvenna í fótbolta af fyrirliðum, forráðamönnum og þjálfurum liða deildarinnar. Þróttur var í þriðja sæti í fyrra og fjórða sæti árið 2022. Liðið ætlar sér því stærri hluti en sjötta sæti. 

Þróttur mætir Fylki á útivelli í fyrstu umferðinni í kvöld klukkan 19.15 í Árbænum.

„Það er neðar en við höfum verið síðustu ár. Ég skil þessa spá, en á sama tíma er þetta ekki okkar markmið, við viljum vera ofar en þetta,“ sagði fyrirliðinn Álfhildur Rósa Kjartansdóttir í samtali við mbl.is.

Ólafur Kristjánsson tók við af Nik Chamberlain fyrir leiktíðina og þá er nokkuð um breytingar á hópi Þróttar. Sterkir leikmenn á borð við Tönyu Boychuk, Kötlu Tryggvadóttur, Írisi Dögg Gunnarsdóttur og Katie Cousins eru farnir.

Í staðinn er Þróttur búinn að fá Sigríði Th. Guðmundsdóttur frá Val og erlendu leikmennina Leah Pais, Millee Swift og Caroline Murray.

„Það er mikið um breytingar, við erum búnar að missa sterka leikmenn og svo eru þjálfarabreytingar. Þær breytingar geta verið jákvæðar fyrir leikmenn og þjálfara.

Við erum búnar að fá mjög góða erlenda leikmenn: Leah, Millee í markið og Caroline. Þær eru mjög sterkar og hafa styrkt liðið gríðarlega mikið. Svo erum við með mjög góða íslenska leikmenn líka og þetta er góður hópur,“ sagði Álfhildur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert