Landsliðsmaðurinn þurfti sýklalyf í æð

Viggó Kristjánsson á æfingu landsliðsins.
Viggó Kristjánsson á æfingu landsliðsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsliðsmaðurinn Viggó Kristjánsson veiktist illa á dögunum og var lagður inn á spítala með lungnabólgu, þar sem hann þurfti sýklalyf í æð.

„Ég veiktist hressilega og eftir skoðun kom í ljós lungnabólga. Ég endaði á að fá sýklalyf í æð og var þrjár nætur á spítalanum. Mér leið strax betur við að fá sýklalyfin,“ sagði Viggó við mbl.is.

„Eftir það var mér ráðlagt að taka þrjár vikur í frí. Þetta voru í heildina einhverjar fjórar vikur þar sem ég hreyfði mig varla neitt,“ bætti hann við.

Þrátt fyrir veikindin hefur Viggó spilað vel með Leipzig í þýsku 1. deildinni í handbolta. Var hann t.a.m. valinn í úrvalslið síðustu umferðar.

„Standið er ekki alveg orðið 100 prósent en ég er samt búinn að æfa í einhverjar tvær vikur og finn að standið er að verða betra. Það mun taka einhverjar tvær vikur í viðbót að komast í toppstand,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert