FH spilar á Ásvöllum – Sauðárkróksvöllur ekki leikhæfur

Unnið er að viðgerðum á bylgjóttum Sauðárkróksvelli.
Unnið er að viðgerðum á bylgjóttum Sauðárkróksvelli. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson

Knattspyrnusamband Íslands, KSÍ, hefur tilkynnt um breytingar á leikvöllum í Bestu deild kvenna vegna vallaraðstæðna.

Leikur FH og Þórs/KA í annarri umferð deildarinnar á laugardaginn hefur verið færður úr Kaplakrika á Ásvelli þar sem Kaplakrikavöllur er ekki tilbúinn til notkunar.

Þá er búið að víxla heimaleikjum Tindastóls og Breiðabliks, en leikurinn í annarri umferð á laugardag átti upphaflega að fara fram á Sauðárkróksvelli. Leikurinn getur ekki farið fram á honum vegna viðgerða.

Þess í stað fer hann fram á Kópavogsvelli og síðari leikur liðanna í Bestu deildinni á Sauðárkróksvelli þann 2. júlí næstkomandi.

Um síðustu helgi var Sauðárkróksvöllur á floti, sem þýddi að fresta þurfti leik Tindastóls gegn FH um einn sólarhring.

Eftir leysingar mátti sjá hvernig völlurinn var bylgjóttur og er nú unnið að lagfæringu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert