Ótrúleg endurkoma á Grenivík

Ibrahim El Miri skoraði sigurmark Magna í uppbótartíma.
Ibrahim El Miri skoraði sigurmark Magna í uppbótartíma. Ljósmynd/Magni Grenivík

Magni vann ótrúlegan sigur á Hvíta riddaranum, 2:1, í 1. umferð í 3. deild karla í fótbolta á heimavelli sínum á Grenivík í dag.

Hilmar Þór Sólbergsson kom Hvíta riddaranum yfir á 45. mínútu og var staðan 1:0 allt þar til Þorsteinn Ágúst Jónsson jafnaði á lokamínútunni og Ibrahim El Miri gerði sigurmark Magna í uppbótartíma.

Það var mikill markaleikur þegar KV sigraði ÍH á útivelli í Skessunni í Hafnarfirði, 3:2. Einar Már Þórisson og Freyr Þrastarson komu KV í 2:0, áður en Andri Jónasson minnkaði muninn. Freyr var aftur á ferðinni á 75. mínútu er hann kom KV í 3:1. Brynjar Ásgeir Guðmundsson minnkaði muninn fyrir ÍH í blálokin og þar við sat.

Árbær og Víðir skildu jafnir í Árbænum, 2:2. Víðir komst í tvígang yfir með mörkum frá Alex Þór Reynissyni og David Jímenez. Árbær jafnaði hins vegar fyrst með marki Sigurðar Karls Gunnarssonar og síðan Ragnars Páls Sigurðssonar.

Loks vann KFK útisigur á Sindra, 2:1. Atli Dagur Ásmundsson kom Sindra yfir á 20. mínútu en Birkir Snær Ingólfsson jafnaði á 38. mínútu. Javier Fidalgo tryggði KFK eins marks sigur með marki á lokamínútu fyrri hálfleiks.

Úrslit fyrstu umferðar í 3. deild:
Árbær - Víðir 2:2
ÍH - KV 2:3
Sindri - KFK 1:2
Magni - Hvíti riddarinn 2:1
Kári - Elliði 4:0
Augnablik - Vængir Júpíters 3:3

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert