Höfðum þolinmæði til að klára verkefnið

Stjörnumenn fagna hér einu af fjórum mörkum sínum í kvöld.
Stjörnumenn fagna hér einu af fjórum mörkum sínum í kvöld. mbl.is/Eyþór

Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, segir óhætt að tala um að lið sitt hafi unnið vinnusigur í kvöld, en Stjarnan vann þá ÍA með fjórum mörkum gegn einu. 

„Við vissum að þetta yrði erfiður leikur og að Skagamenn yrðu þéttir og vel þjálfað lið. Það er ekkert lið sem fer þægilega í gegnum Skagann,“ segir Jökull.

Hann bætir við að Stjörnumenn hafi einnig vitað fyrir leik að það myndi kosta erfiði að brjóta niður vörn Skagamanna. „En við vissum einnig að ef við hefðum þolinmæði fyrir því sem við værum að gera að þá myndi það takast á endanum og það gekk eftir.“

Stjörnumenn lentu undir í upphafi leiks, en tóku svo nokkurn veginn stjórnina á leiknum, þó að Skagamenn hafi sýnt mikla baráttu. Jökull segir þó aðspurður hvort það hafi verið uppleggið fyrir leikinn að málin séu ekki svo klippt og skorin.

„Já, auðvitað viljum við alltaf hafa stjórnina á leiknum, en hin hliðin er að Skagamönnum fannst að þeir hefðu eflaust líka góða stjórn á leiknum með varnarleik sínum. Ég tek alls ekki neitt af þeim fyrir það, þeir eru mjög erfitt lið að spila við og það þarf að hafa mikið fyrir því að koma mörkum á það. Þannig að það að við skoruðum fjögur mörk á þá er ótrúlega sterkt,“ segir Jökull.

Hann bætir við að það hafi ekki fengið á menn þó að Skaginn hafi komist yfir snemma leiks. Menn hafi haft trú á verkefninu. „Við vissum alveg að við gætum það [skorað tvö mörk] og tempóið hjá okkur var mjög gott, þrátt fyrir að þeir hafi fallið þétt til baka, þá áttum við mjög góðar og hraðar sóknir þar sem við ógnuðum, án þess endilega að fá færin.“

-Á tímabili voruð þið komnir mjög framarlega með liðið í pressunni á Skagamenn þar sem allir útispilarar voru komnir fram yfir miðjuna? „Já, við hikum ekki við að pressa framarlega og fara jafnvel enn framar en það ef leikurinn bíður upp á það. Það er gaman að spila pressu og gaman að spila hraðan leik og skemmtilegt að fá opnari leik en síðustu leikir hafa verið.“

Mjög erfiður leikur fram undan

Stjarnan mætir Frömurum í næsta leik, en þeir eru þegar þetta er skrifað í þriðja sæti með tíu stig, einu stigi meira en Stjarnan, og hafa Framarar fengið á sig þrjú mörk í leikjunum fimm. Aðspurður hvort að Stjörnumenn geti ekki tekið með sér ýmsa reynslu úr leiknum í kvöld í ljósi þess hversu góðan varnarleik Framarar hafa spilað segir Jökull að Framarar spili öðruvísi kerfi en Skagamenn.

„Skaginn er meira í skyndisóknum, en Framarar hafa verið mjög flottir með ótrúlega öflugan þjálfara í Rúnari. Þeir hafa náð frábærum tökum í að vera þéttir til baka en spila góðan fótbolta þegar þeir eru á boltanum. Það verður því fáránlega erfiður leikur gegn liði sem lítur út fyrir að vera með betri liðum deildarinnar í dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert