Þetta var eins og bikarúrslitaleikur

Patrick Pedersen rennir sér í Viktor Karl Einarsson í leiknum …
Patrick Pedersen rennir sér í Viktor Karl Einarsson í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta var rosalega stórt fyrir okkur, þessi leikur var eins og bikarúrslitaleikur," sagði Patrick Pedersen, framherji Valsmanna, eftir að þeir lögðu Breiðablik að velli, 3:2, á Kópavogsvelli í lokaleik fimmtu umferðar Bestu deildar karla í fótbolta.

Valsmenn eru þar með komnir upp í sjötta sætið með átta stig eftir slæma byrjun á Íslandsmótinu.

„Við urðum að fá þrjú stig í kvöld, enda vorum við ekki sáttir við að vera aðeins komnir með fimm stig eftir fyrstu fjóra leikina," sagði Patrick við mbl.is eftir leikinn.

Hann skoraði fyrsta mark Vals, sitt 102. mark í efstu deild, en með því er hann orðinn einn í fjórða sætinu yfir þá markahæstu í deildinni frá upphafi.

Önnur úrslit í umferðinni voru Valsmönnum hagstæð, sérstaklega tap Víkinga gegn HK í gærkvöld.

„Já, það er styttra í þá núna og nú verðum við að halda okkar striki, halda áfram að vinna leiki, taka einn í einu og sjá hvað það gefur okkur," sagði Patrick.

Var þetta ykkar besti leikur hingað til á tímabilinu?

„Já, ég held það, og við sýndum gríðarlegan liðsanda eftir að við fengum á okkur rauða spjaldið, eftir að hafa spilað mjög vel í fyrri hálfleiknum. Þá áttum við að skora meira en tvö mörk. Seinni hálfleikurinn var mjög erfiður, það er ekki auðvelt að spila nánast heilan hálfleik manni færri, hvað þá á móti svona sterku liði eins og Breiðabliki.

Við vörðumst vel, nýttum allan þann tíma sem við höfðum í aukaspyrnum og öðrum atriðum og held að við höfum leyst þetta verkefni vel," sagði Patrick.

Mörkin ykkar þrjú voru ekki af verri endanum?

„Já, mörkin okkar voru virkilega góð. Ég var viðbúinn til að taka frákastið þegar Gylfi skaut í þverslána og náði að hitta boltann vel. Aukaspyrnan hjá honum var frábær, við höfum séð á æfingum hversu góður skotmaður hann er og þetta var virkilega vel gert."

Hvernig er að spila með Gylfa?

„Hann er frábær karakter og frábær fótboltamaður sem hefur haft góð áhrif á liðið og það er gott að spila með honum. Hann gefur allt til liðsins inni á vellinum og það er magnað að vera með hann í liðinu," sagði Patrick Pedersen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert