Dveljum ekki mikið í fortíðinni

Kristrún Ýr Holm, fyrirliði Keflavíkur.
Kristrún Ýr Holm, fyrirliði Keflavíkur. Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Mér fannst við eiga skilið að komast yfir í leiknum,“ sagði Kristrún Ýr Holm, fyrirliði Keflavíkur, eftir svekkjandi 2:1 tap á heimavelli gegn Íslandsmeisturum í Val í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í kvöld.

„Við börðumst vel og vildum svo mikið vinna. En það var svo 5-10 mínútna kafli þar sem fókusinn var ekki á réttum stað og okkur var refsað.

Mér fannst við heilt yfir ótrúlega góðar og ef við höldum þessari spilamennsku áfram, þá hef ég ekki miklar áhyggjur af framhaldinu,“ hélt hún áfram í samtali við mbl.is.

Lið Keflavíkur sýndi mikinn kraft og skipulag í vörninni þar sem Kristrún Ýr var í nýju hlutverki djúps miðjumanns þar sem hún varði vörnina af dugnaði með miðverðina Anitu Lind Daníelsdóttur og Caroline McCue Van Slambrouck fyrir aftan sig en þær áttu einnig hörkuleik báðar.

Keflavíkur liðið var vel skipulegt aftarlega og gáfu Íslandsmeisturunum ekki mikinn tíma á boltann.

Framar á vellinum voru þær Saorla Miller og Melanie Rendeiro allt í öllu og var Saorla sí ógnandi.

Eftir smá einbeitingarleysi í kjölfar annars marks Valsara þá ætluðu Keflvíkingar aldeilis ekki að láta valta yfir sig og fór Kristrún Ýr fór yfir hvað fór um huga leikmanna þegar liðið var allt í einu lent undir:

„Hausinn upp og áfram gakk. Mark er bara mark og maður getur alltaf snúið leiknum sér í vil ef maður leggur virkilega á sig og vill það. Við ætluðum að jafna en það náðist ekki í dag.“

Þrátt fyrir tap í fyrstu fjórum leikjum deildarinnar er engan bilbug á liði Keflavíkur að finna.

„Við erum ekki mikið að dvelja í fortíðinni og draga okkur niður. Það er bara áfram gakk og næsti leikur.

Við höfum sýnt góða frammistöðu en við þurfum að vinna betur í ákveðnum hlutum í leikjum þar sem við hreinlega slökkvum á okkur og er refsað í kjölfarið. Það er auðvelt að laga það og við verðum tilbúnar í næsta leik,“ sagði Kristrún Ýr að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert