Fengum hárblásara í hálfleik

Andrea Mist Pálsdóttir fyrirliði Stjörnunnar.
Andrea Mist Pálsdóttir fyrirliði Stjörnunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við bara mættum ekki í fyrri hálfleikinn, vorum ekki að vinna einvígi og ekki að fara eftir því sem áttum að gera svo við fengum gersamlega skell í andlitið en fengum svo hárblásara í hálfleik, ræddum saman hvað fór úrskeiðis, settum fyrri hálfleikinn til hliðar og mættum betur til leiks,“ sagði Andrea Mist Pálsdóttir fyrirliði Stjörnunnar eftir 5:1 tap fyrir Blikum þegar liðin mættust í 4. umferð efstu deildar kvenna í knattspyrnu á Kópavogsvelli í kvöld.

Fyrirliðinn segir eina í stöðunni að setja fyrri hálfleikinn til hliðar. „Við vitum að Breiðablik er með gríðarlega sterkt sóknarlið og ætluðum bara að vera þéttar fyrir, vorum búnar að fara yfir þá möguleika sem við gætum nýtt okkur fram á við en það fór allt úrskeiðis.  Gæti verið eitthvað um mistök í samskiptum leikmanna en það er búið og við verðum bara að halda áfram. Við reyndum að gleyma fyrri hálfleiknum og reyna að standa okkur.  Vissulega var seinni hálfleikur markalaus en það telur ekki í stigatöflunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert