„Ógeðslegt að fá þetta mark á sig“

Ólafur Kristjánsson og formaður knattspyrnudeildar Þróttar, Kristján Kristjánsson
Ólafur Kristjánsson og formaður knattspyrnudeildar Þróttar, Kristján Kristjánsson Ljósmynd/Þróttur

Ólafur Kristjánsson, þjálfari Þróttar, var að vonum svekktur eftir tap Þróttar gegn FH í Bestu deild kvenna í dag. Þróttur var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en rautt spjald á Þrótt og sigurmark FH á síðustu andartökum leiksins réðu úrslitum.

„Ég er mjög ánægður með frammistöðu míns liðs í leiknum og fannst við vera sterkari aðilinn“. Sagði Ólafur í viðtali við mbl.is.

„Við erum betri með bolta, án bolta, pressum betur og fáum góð færi í fyrri hálfleiknum. Rauða spjaldið er slysalegt, svona hæll í hné atvik, og það tekur okkur smá tíma í að ná áttum og þær eðlilega herja á okkur ellefu á móti tíu. Í restina er komin þreyta í okkur enda mikil hlaup og spilað á grasi“.


„Svo er bara ógeðslegt að fá þetta mark á sig með þrjátíu sekúndur eftir af uppbótartíma. Þannig að ef ég tek frammistöðuna þá erum við betri en úrslitin standa eftir og þau eru ógeðsleg“.

Þróttur er einungis með eitt stig eftir fjóra leiki en það kom gegn Fylki í 1. umferð. Hvernig metur Ólafur byrjun Þróttar í deildinni. Í dag fékk Þróttur færi til að komast yfir en þau fóru öll forgörðum.

„Stigasöfnunin er rýr, mér finnst við búin að spila fjóra prýðilega leiki. Við töpum naumlega jöfnum leikjum gegn Þór/KA og Val og vinnum ekki leikina sem við höfum yfirhöndina í eins og í dag og gegn Fylki“.

„Stígandinn í spilamennskunni er í lagi en úrslitin fylgja ekki og það hlýtur að detta fyrir okkur einhvern tímann. Við ætlum ekki að fara á taugum og höldum okkur við það sem við erum að gera en fótboltaleikir ráðast inni í teigunum“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert