Sigur norðankvenna í stórskemmtilegum leik

Akureyringurinn Hulda Ósk Jónsdóttir sækir að marki Víkings í leiknum …
Akureyringurinn Hulda Ósk Jónsdóttir sækir að marki Víkings í leiknum í dag. mbl.is/Eyþór Árnason

Víkingur tók á móti Þór/KA í Víkinni í dag í fjórðu umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta. Leikurinn var hin mesta skemmtun en endaði með sigri gestanna, 2:1.

Shaina Ashouri kom Víkingum yfir en Ísfold Marý Sigtryggsdóttir og Sandra María Jessen skoruðu mörk Þórs/KA, öll mörk leiksins voru skoruð í fyrri hálfleik. Víkingar eru með fjögur stig eftir leik dagsins en Þór/KA fer upp í 9 stig.

Leikurinn byrjaði fjörlega því strax á fimmtu mínútu kom Shaina Ashouri Víkingum 1:0 yfir eftir glæsilegan undirbúning Sigdísar Evu Bárðardóttur. Þór/KA lét þó ekki slá sig út af laginu og jöfnuðu metin eftir mikinn sóknarþunga á sautjándu mínútu, þar var að verki Ísfold Marý Sigtryggsdóttir eftir fyrirgjöf Söndru Maríu Jessen og staðan 1:1.

Shaina fékk dauðafæri til að koma Víkingum yfir en náði ekki að stýra boltanum í autt mark gestanna eftir annan glæsilegan sprett og fyrirgjöf Sigdísar.Sandra María refsaði Víkingum fyrir klúðrið því mínútu síðar skoraði hún með þrumuskoti í þaknetið rétt utan vítateigs. Frábært mark hjá Söndru og gestirnir búnir að snúa 1:0 stöðu í 1:2.

Síðari hálfleikur róaðist töluvert, mikil barátta einkenndi leikinn en jafnræði var með liðunum. Bergdís Sveinsdóttir átti besta færi síðari hálfleiks þegar hún prjónaði sig í gegnum vörn gestanna en skot hennar hafnaði í þverslánni úr dauðafæri. Þrátt fyrir sóknir á báða bóga urðu mörkin ekki fleiri og Þór/KA tók stigin þrjú með sér norður.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Víkingur R. 1:2 Þór/KA opna loka
90. mín. 4 mínútur í uppbót
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert