„Korter í taugaáfall“

Leifur Grímsson og Elsa Hrönn Reynisdóttir.
Leifur Grímsson og Elsa Hrönn Reynisdóttir. mbl.is/Binni

„Þessi leikur leggst mjög vel í mig en á sama tíma er ég mjög stressuð,“ sagði Elsa Hrönn Reynisdóttir, móðir Bjarka Más Elíssonar, í samtali við mbl.is á Hof­bräu­haus í München í dag.

Elsa Hrönn er mætt ásamt fjölskyldu sinni til þess að fylgja eftir íslenska karlalandsliðinu í handknattleik á Evrópumótinu í Þýskalandi en Ísland mætir Serbíu í fyrsta leik sínum á mótinu í Ólympíuhöllinni í München klukkan 17.

„Við erum að fara vinna þennan leik en á sama tíma er ég að fara missa meðvitund úr stressi. Tilfinningin eftir leik samt, þegar okkur gengur vel, er á sama tíma besta tilfinning í heimi og ég er mjög spennt,“ sagði Elsa Hrönn.

Öll fjölskyldan mætt

Bjarki Már er í lykilhlutverki í landsliðinu en hann er ein af vítaskyttum liðsins.

„Þegar hann fer inn úr horninu, eða er á vítalínunni þá er ég alltaf korter í taugaáfall. Þetta er klárlega stærsta mót sem ég hef farið á, á því leikur enginn vafi. Við erum hérna saman, um tuttugu manna vinahópur. Bróðir minn er hérna líka og móðir mín þannig að við erum öll fjölskyldan mætt til þess að styðja við strákana og Bjarka Má,“ bætti Elsa við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka