Spáir sigri fyrir alla Grindvíkinga

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ásamt vinkonum sínum á Hofbräuhaus.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ásamt vinkonum sínum á Hofbräuhaus. mbl.is/Brynjólfur Löve

„Ég hef mikla trú á íslenska liðinu í dag,“ sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra Íslands, í samtali við mbl.is á Hofbräuhaus í München í dag.

Ísland mætir Svartfjallalandi í öðrum leik sínum í C-riðli Evrópumótsins í Ólympíuhöllinni í München í dag en Ísland gerði jafntefli við Serbíu í fyrstu umferðinni á meðan Svartfjallaland tapaði naumlega fyrir Ungverjalandi, 26:24.

„Þeim tókst að gera leikinn ansi spennandi gegn Serbíu og það er svolítið í þeirra anda og okkar Íslendinga, maður hefur varla horft á handboltaleik í gegnum tíðina án þess að það sé spenna í hæsta gæðaflokki,“ sagði Áslaug Arna.

Mikil áhugakona um handbolta

Áslaug Arna er mikil áhugamanneskja um íþróttir og er oftast mætt á stórleiki þegar þeir eiga sér stað.

„Ég æfði handbolta í gamla daga með Fram og var ekkert sértaklega góð enda var samkeppnin mikil með þær Karen Knútsdóttur og Stellu Sigurðardóttur innanborð. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á handbolta og það er gaman að fylgjast með þessari íþrótt. Ég hef hins vegar aldrei mætt á stórmót áður og tók skyndiákvörðun um að gera það í síðustu viku og hingað er ég mætt.“

Eldgos hófst við Grindavík í morgun og er hugur íslensku þjóðarinnar hjá öllum Grindvíkingum í dag.

„Dagurinn í dag markast mikið af eldgosinu við Grindavík og ég held að það sé aðeins öðruvísi stemning hjá Íslendingum en gengur og gerist. Hugur okkar er hjá Grindvíkingum á sama tíma og við erum hérna úti að styðja strákana til sigurs og ég spái því að það komi sigur í hús fyrir alla Grindvíkinga,“ bætti Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert