Ronaldo jafnaði markametið

Ronaldo fagnar marki gegn Sevilla í gær.
Ronaldo fagnar marki gegn Sevilla í gær. AFP

Cristiano Ronaldo, leikmaður Evrópumeistara Real Madrid, heldur áfram að skrá nafn sitt í sögubækurnar.

Ronaldo skoraði tvö mörk fyrir Real Madrid í 4:1 sigri liðsins gegn Sevilla í spænsku 1. deildinni í gær og hann jafnaði þar með markamet ensku goðsagnarinnar Jimmy Greaves.

Ronaldo og Greaves deila markametinu en báðir hafa þeir skorað 366 deildarmörk, einu marki meira en Þjóðverjinn Gerd Müller. Ronaldo skoraði 84 deildarmörk fyrir Manchester United þau sex ár sem hann lék með liðinu og hann hefur skorað 282 mörk fyrir Real Madrid í spænsku deildinni þau átta ár sem hann hefur spilað með Madridarliðinu.

Líklegt má telja að Ronaldo bæti metið áður en tímabilinu lýkur en Real Madrid á eftir tvo leiki, gegn Celta Vigo á heimavelli á miðvikudaginn og útileik á móti Málaga í lokaumferðinni.

Markahæstu leikmenn í Evrópu:

1: Jimmy Greaves - Cristiano Ronaldo - 366

3: Gerd Müller - 365

4: Lionel Messi - 346

5: Steve Bloomer - 317

6: Dixie Dean - 310

7: Delio Onnis - 299

8:  Gordon Hodgson - 287

9:  Alan Shearer - 283

10: Silvio Piola - 274

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert