Lítil einkaflugvél hvarf af ratsjám í gærkvöldi, en hún var á leið frá Frakklandi til Wales. Óttast er að nýr leikmaður Cardiff í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu hafi verið um borð.
Það er BBC sem greinir frá þessu nú í morgun. Þar er sagt að tveir farþegar hafi verið um borð í lítilli vél sem var á leið frá Nantes í Frakklandi til Cardiff. Enska úrvalsdeildarfélagið Cardiff, sem Aron Einar Gunnarsson leikur með, keypti á dögunum argentínska framherjann Emiliano Sala frá liði Nantes og óttast er að hann hafi verið um borð í vélinni, að sögn BBC.
Samkvæmt frétt BBC hvarf vélin af ratsjám um klukkan 20.30 í gærkvöldi, áður en hún náði landi við Bretlandsstrendur. Síðast sást til hennar við Casquets-vitann í Ermarsundi. Björgunarþyrlur voru sendar til leitar á svæðinu, en vegna slæmra veðurskilyrða þurftu þær að endingu frá að hverfa seint í gærkvöld. Leit hófst svo á ný nú í morgunsárið.
Samkvæmt velska miðlinum WalesOnline er verið að leita staðfestingar á því hvort Sala hafi verið um borð. Fréttastofan AFP hefur eftir heimildarmanni innan lögreglu að hann hafi verið um borð.
Tilkynnt var um kaup Cardiff á Sala á laugardag, en hann varð þá dýrasti leikmaður í sögu félagsins.