Frönsk yfirvöld hafa endanlega staðfest það að argentínski framherjinn Emiliano Sala, sem enska úrvalsdeildarfélagið Cardiff keypti frá Nantes á laugardag, hafi verið um borð í flugvélinni sem leitað er að á Ermarsundi.
Sala var ásamt flugmanni í lítilli vél sem var á leið frá Nantes til Cardiff í gærkvöldi, en um klukkan 20.30 hvarf vélin af ratsjám. Vegna erfiðra skilyrða þurftu leitarmenn frá að hverfa í gærkvöldi, en leitað hefur verð á sjó og úr lofti í allan morgun. Ekkert hefur spurst til vélarinnar.
Sagt er að vélin hafi verið á flugi í um 5 þúsund metra hæð, en óskað eftir því að fá að lækka flugið. Síðast þegar vitað er til hennar var hún í rúmlega 2 þúsund metra hæð við Casquets-vitann í Ermarsundi.
Tilkynnt var um kaup Cardiff á Sala á laugardag, en hann varð þá dýrasti leikmaður í sögu félagsins. Hann átti að mæta á sína fyrstu æfingu í morgun.