Ensku ofurdeildarfélögin fá háa sekt

Enskir stuðningsmenn voru allt annað en sáttir með stofnun ofurdeildarinnar …
Enskir stuðningsmenn voru allt annað en sáttir með stofnun ofurdeildarinnar og mótmæltu henni harðlega. AFP

Ensku knattspyrnufélögin sex sem komu að stofnun hinnar svokölluðu ofurdeildar þurfa að greiða 22 milljónir punda á milli sín í sekt til ensku úrvalsdeildarinnar. Það er Sportsmail sem greinir frá þessu.

Arsenal, Chelsea, Liverpool, Manchester City, Manchester United og Tottenham þurfa því að greiða tæplega 3,7 milljónir punda hvert en það samsvarar rúmlega 631 milljónum íslenskra króna á hvert lið.

Fari hins vegar svo að félögin gerist sek um að reyna stofna til evrópskar ofurdeildar á nýjan leik verður sektin við því í kringum 25 milljónir punda á lið, ásamt því að 30 stig verða dregin af þeim í deildarkeppninni á Englandi.

Ekkert varð úr stofnun ofurdeildarinnar en tólf af stærstu liðum Evrópu komu öll að stofnun hennar í apríl á þessu ári.

Níu félög drógu sig úr stofnendahópnum en Barcelona, Juventus og Real Madrid hafa enn ekki gefið sig eiga þau öll von á hárri fjársekt frá UEFA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert