Englendingar missa leikmenn í sóttkví

Mason Mount hefur verið í byrjunarliði Englands í báðum leikjunum …
Mason Mount hefur verið í byrjunarliði Englands í báðum leikjunum til þessa og er hér í leiknum við Skota. AFP

Tveir leikmanna enska landsliðsins í knattspyrnu hafa verið sendir í sóttkví eftir að hafa umgengist skoska landsliðsmanninn Billy Gilmour sem greindist með kórónuveiruna.

Þeir Ben Chilwell og Mason Mount, sem leika með Chelsea eins og Gilmour, sáust eiga samskipti við hann eftir leik Englands og Skotlands á Wembley á föstudagskvöldið. Gilmour var eftir það greindur með veiruna og verður ekki með Skotum gegn Króatíu á morgun.

Allt enska landsliðið gekkst undir skimun í dag og allir leikmennirnir reyndust neikvæðir fyrir veirunni. Englendingar mæta Tékkum í úrslitaleik D-riðilsins á Wembley á morgun.

Í yfirlýsingu frá enska knattspyrnusambandinu segir að leikmennnirnir tveir verði aðskildir frá samherjum sínum í landsliðinu og starfsliði þess þar til farið hefði verið betur yfir málið með bresku heilbrigðisþjónustunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert