Harry Kane, fyrirliði enska karlalandsliðsins í knattspyrnu, hefur komið samherjum sínum þremur, sem hafa mátt þola skelfilegt kynþáttaníð, til varnar.
Marcus Rashford, Jadon Sancho og Bukayo Saka klúðruðu allir vítaspyrnum sínum í vítakeppni gegn Ítalíu í úrslitum Evrópumótsins þegar Ítalir unnu sinn annan Evrópumeistaratitil á sunnudagskvöld.
Í kjölfarið rigndi ógeðfelldu kynþáttaníði yfir þremenningana á samfélagsmiðlum.
„Þeir eiga skilið stuðning, ekki þetta viðbjóðslega kynþáttaníð sem þeir hafa orðið fyrir frá því í gærkvöldi [á sunnudagskvöld].
Þetta eru þrír strákar sem voru magnaðir í allt sumar og fundu hjá sér hugrekki til þess að taka vítaspyrnur þegar allt var undir,” sagði Kane í gær og bætti við:
„Ef þið níðist á einhverjum á samfélagsmiðlum eruð þið ekki stuðningsmenn Englands og við viljum ekki hafa ykkur sem stuðningsmenn.“
Samherji þeirra í enska landsliðinu, Tyrone Mings, sagðist á Twitter-aðgangi sínum í gær því miður ekki hissa á þessum viðbrögðum.
„Að vakna í dag og sjá bræður mína verða fyrir kynþáttaníði fyrir að vera nægilega hugrakkir til þess að koma sér í aðstöðu til þess að hjálpa þjóðinni er eitthvað sem veldur því að mér sundlar en kemur mér ekkert á óvart.“
Gareth Southgate, þjálfari enska landsliðsins, sagði níðið einfaldlega óásættanlegt.