Liverpool sigraði í London

Trent Alexander-Arnold skoraði glæsilegt mark úr aukaspyrnu.
Trent Alexander-Arnold skoraði glæsilegt mark úr aukaspyrnu. AFP/Benjamin Cremel

Liverpool sigraði Fulham, 3:1, í ensku úrvalsdeild karla í knattspyrnu á Craven Cottage í Lundúnum í dag.

Með sigrinum er Liverpool komið í annað sæti með 74 stig, jafnmörg og topplið Arsenal. City er í þriðja sæti með 73 stig en á leik til góða. Fulham er í tólfta sæti með 42 stig. 

Trent Alexander-Arnold, Ryan Gravenberch og Diogo Jota skoruðu mörk Liverpool í leiknum en Timothy Castagne gerði mark Fulham. 

Liverpool sannfærandi

Það voru leikmenn Liverpool sem byrjuðu betur á Craven Cottage en strax á 3. mínútu leiksins átti Trent Alexander-Arnold flotta sendingu fyrir mark Fulham og þar var Luis Diaz einn á auðum sjó en skalli hans fór rétt framhjá.

Á 22. mínútu fékk Diogo Jota gott færi en þá fékk hann sendingu frá Luis Diaz en skot Jota fór rétt framhjá. Fyrsta skot Fulham sem rataði á mark Liverpool var skot Joao Palhinha á 25. mínútu leiksins en skotið fór beint á Alisson sem greip boltann örugglega.

Á 28. mínútu fékk Liverpool aukaspyrnu rétt fyrir utan teiginn og tók Harvey Elliott spyrnuna sn hún fór beint í vegginn. Aðeins fjórum mínum síðar fékk Liverpool aftur aukaspyrnu rétt fyrir utan teiginn og að þessu sinni tók Trent Alexander-Arnold spyrnuna og endaði skot hans efst í markhornið, sannkallað draumamark hjá Trent og Liverpool komið með 1:0 forystu.

Eftir markið vöknuðu heimamenn til lífsins og átti meðal annars Rodrigo Muniz fínt skot á mark Liverpool á 38. mínútu en Alisson varði vel frá honum. En Fulham tókst að jafna metin í lok fyrri hálfleiks en eftir sannkallaða stórsókn fékk Timothy Castagne boltann og hamraði honum í netið en hann fékk boltann frá Jarell Quansah, varnarmanni Liverpool, en hann var að reyna að koma boltanum frá.

Leikmenn Liverpool byrjuðu seinni hálfleikinn virkilega vel og komumst gestirnir yfir á 53. mínútu en þá átti Alex Iwobi slæma sending þvert yfir völlinn og Harvey Elliott komst inn í sendinguna og kom boltanum á Ryan Gravenberch sem lét bara vaða fyrir utan teiginn og boltinn hreinlega söng í netinu.

Virkilega smekklega gert hjá honum. Leikmenn Liverpool héldu áfram að sækja eftir markið og Diogo Jota og Cody Gakpo fengu báðir góð tækifæri til að koma Liverpool í 3:1 en Bernd Leno kom í veg fyrir það með góðum markvörslum.

Diogo Jota kom Liverpool í 3:1.
Diogo Jota kom Liverpool í 3:1. AFP/Benjamin Cremel

Hann aftur á móti náði ekki að verja frá Diogo Jota á 73. mínútu leiksins en þá fékk Jota flotta sending frá Cody Gakpo inn fyrir vörn Fulham og setti boltann smekklega framhjá Leno í markinu og kom Liverpool í 3:1. Það var ekki mikið að gerast sóknarlega hjá Fulham í seinni hálfleik en á 89. mínútu leiksins átti Tom Cairney gott skot á markið sem Alisson varði út í teiginn og Rodrigo Muniz fylgdi vel á eftir en setti boltann í hliðarnetið.

Virgil van Dijk fagnar ásamt markaskoraranum Ryan Gravenberch.
Virgil van Dijk fagnar ásamt markaskoraranum Ryan Gravenberch. AFP/Benjamin Cremel

Þetta var það næsta sem Fulham komst í því að skora í seinni hálfleik. Öruggur sigur Liverpool því staðreynd.

Næsti leikur Fulham er gegn Crystal Palace á Craven Cottage á laugardaginn en Liverpool mætir Everton á Goodison Park á miðvikdagskvöldið.

Fulham 1:3 Liverpool opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti sex mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka