Vildu þrjú víti og krefjast hljóðupptakna

Heimavöllur Nottingham Forest, City Ground.
Heimavöllur Nottingham Forest, City Ground. AFP/Darren Staples

Enska knattspyrnufélagið Nottingham Forest hefur lagt fram kröfu til Samtaka atvinnudómara á Englandi, PGMOL, um að samtökin geri opinberar hljóðupptökur vegna þriggja atvika í 2:0-tapi fyrir Everton í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Vill félagið fá að heyra rök dómara og VAR-dómara fyrir því að dæma ekki þrjár vítaspyrnur sem liðið vildi fá í leiknum. Forest fordæmdi PGMOL opinberlega á X-aðgangi sínum eftir leikinn í gær.

„Þrjár gífurlega slappar ákvarðanir, þrjár vítaspyrnur sem voru ekki gefnar, sem við getum einfaldlega ekki unað.

Við vöruðum PGMOL við því fyrir leik að VAR-dómarinn er stuðningsmaður Luton en honum var ekki skipt út. Reynt hefur á þolinmæði okkar mörgum sinnum,“ sagði í færslunni í gær.

Young þrisvar brotlegur?

Í dag tilkynnti Forest svo að félagið hafi krafist þess formlega að PGMOL opinberi hljóðupptökur milli dómara og VAR vegna þriggja atvika, þar sem þeim þótti Ashley Young vera brotlegur innan vítateigs í öll skiptin.

Fyrsta atvikið snýr að því þegar Gio Reyna féll við eftir viðskipti við Young á 24. mínútu, annað þegar hann virtist handleika knöttinn á 44. mínútu og loks þegar Young fór í Callum Hudson-Odoi og hann féll við á 56. mínútu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert