Þurfti á aðgerð að halda í hálft ár

Enzo Fernández í leik með Chelsea.
Enzo Fernández í leik með Chelsea. AFP/Glyn Kirk

Argentínski knattspyrnumaðurinn Enzo Fernández gekkst á dögunum undir aðgerð á nára og mun af þeim sökum ekki taka frekari þátt á tímabilinu.

Fernández greinir frá því á samfélagsmiðlum að aðgerðin hafi heppnast vel og að hún hafi verið löngu tímabær.

„Ég þurfti á þessari aðgerð að halda í sex mánuði. Ég gat komist hjá því með meðhöndlun en fyrir nokkrum vikum fóru verkirnir að versna í sífellu án þess að meðhöndlunin hjálpaði nokkuð.

Þetta versnaði þegar ég æfði og spilaði en ég vildi ekki láta staðar numið. Þegar ég klæðist treyjum Chelsea og landsliðsins reyni ég alltaf að gera mitt besta en þegar allt kom til alls gat ég ekki meir.

Ég kem fljótlega sterkari til baka,“ skrifaði Fernández.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert