Úr NFL í rafíþróttir

Kenny Vaccaro.
Kenny Vaccaro. Ljósmynd/Tennessee Titans

Margir atvinnumenn í íþróttum virðast hafa áhuga á rafíþróttum, og hafa fjárfest í eða stofnað rafíþróttafélög og -fyrirtæki um allan heim. Fyrrum NFL-leikmaðurinn Kenny Vaccaro hefur tekið þá ákvörðun að leggja skóna á hilluna og snúa sér að rafíþróttum. 

Vaccaro spilaði átta tímabil í NFL-deildinni í amerískum fótbolta, en hann spilaði með Saints og Titans. Á miðvikudaginn í síðustu viku tilkynnti Vaccaro að hann hafi lagt skóna á hilluna í ameríska fótboltanum til að hefja nýjan starfsferil í rafíþróttum.

Lengi verið draumur

Nýlega stofnaði Vaccaro rafíþróttafélagið Gamers First, eða G1, sem nú stefnir á heimsmeistaramótið í Halo.

„Þetta var ekki skyndiákvörðun, ég hef hugsað um þetta í langan tíma. Ég hef spilað tölvuleiki lengur en amerískan fótbolta. 

Að stofna rafíþróttafélag hefur lengi verið draumur, og vil ég sýna öðrum atvinnumönnum í íþróttum að það er líf eftir atvinnumennskuna,“ er haft eftir Vaccaro.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert