Liðum sem brúka Renaultvélar hefur verið tjáð að þau megi knýja þær til hins ýtrasta í Melbourne um helgina.
Franski vélsmiðurinn leyfði ekki botnkeyrslu við bílprófanir í vetur til að komast hjá frekari bilunum en vandamál tengd vélinni og kælingu hennar hrjáðu liðin við reynsluaksturinn.
Nú segir yfirmaður Renault á formúlumótum, Remi Taffin, að öllum takmörkunum hafi verið aflétt. Því geti ökumenn Red Bull, Lotus, Toro Rosso og Caterham botnkeyrt um brautina.
„Við vorum á eftir áætlun með suma hluta drifrásarinnar sem neyddi okkur til að keyra þær á takmörkuðu afli. En ég held við höfum unnið okkur út úr því öllu og munum komast að því hér hvernig vélarnar reynast þegar hámarksafli er beitt,“ sagði Taffin.