Líklega áfram hjá McLaren

Fern­ando Alon­so yrði „afar lík­lega“ um kyrrt hjá McLar­en skipti liðið yfir á vél­ar frá franska bílsmiðnum Renault á næsta ári. Fljót­lega er bú­ist við tíðind­um af Alon­so og hvort McLar­en verði áfram með Honda­vél­ar eða skipti yfir á Renault­vél­ar.

Frá þessu seg­ir liðsstjór­inn Zak Brown en hann seg­ir það myndi verða auðveld­ar að fá hann til að keppa áfram fyr­ir McLar­en tak­ist liðinu að verða sér úti um fransk­ar vél­ar í bíla sína á næsta ári í stað jap­anskra. Virðist tak­mörkuð trú ríkja á að Honda geti smíðað áreiðan­lega og sam­keppn­is­færa vél, a.m.k. ekki á næstu miss­er­um.

Honda­stjór­inn Yusu­ke Haseg­awa sagði í síðustu viku að kýr­ljóst væri að Alon­so vildi ekki leng­ur keyra með Honda­vél­ar í bíln­um. Því aðeins yrði hann áfram, að Honda tæk­ist að sýna fram á mikl­ar fram­far­ir.

„Svo virðist sem ég snæði morg­un­verð ans­is oft með Fern­ando . . . hann elsk­ar liðið, hann er ástríðufull­ur sem aldrei fyrr í keppni. Hann vill vera í formúlu-1 og vill að við verðum sam­keppn­is­fær­ari,“ seg­ir Brown.

Hann seg­ist ekki úti­loka að Alon­so, McLar­en og Honda haldi áfram sam­starfi. „Við skoðum þessi mál bet­ur í vik­unni. Ég myndi ekki segja að það væri fyr­ir­fram ljóst að hann hvr­efi héðan verðum við áfram með Honda­vél­ar.“

Í ljósi samn­inga sinna við Renault hef­ur Red Bull neit­un­ar­vald varðandi ákv­arðanir um hvaða lið fái vél­ar frá Renault. Hann gef­ur til kynna að því yrði ekki beitt. Til hans sást yf­ir­gefa mótor­heim­ili McLar­en að tjalda­baki í Monza í gær­morg­un. Í vand­ræðum sín­um hef­ur McLar­en leitað fyr­ir sér um skipti; að Toro Rosso fái Honda­vél­ar í bíla sína á næsta ári og greiði þannig fyr­ir að McLar­en geti fengið Renault­vél­ar.

Renault sér eig­in liði fyr­ir vél­um og einnig Red Bull og Toro Rosso. Kveðst franski bílsmiður­inn ekki vilja leggja fleiri liðum til vél­ar og því gæti hnút­ur­inn leystst með skipt­um McLar­en og Toro Rosso.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert