„Algjörlega nýr“ Renault 2018

Tæknistjóri Renaultliðsins, Nick Chester, segir að keppnisbíll liðsins á næsta ári, 2018, verði alveg nýr frá grunni hvað hönnun varðar.

Þetta hyggst Renault gera þrátt fyrir að keppnis- og tæknireglur bílanna breytist nánast ekkert milli ára. Með reglum sem tóku gildi fyrir yfirstandandi keppnistíð var vængpressa bílanna aukin, breidd þeirra og dekkjanna aukin sem skilaði sér í auknum hraða.

Chester segir ráðstafanir liðsins vera í samræmi við þann ásetning þess að keppa á toppi formúlunnar, en liðið er á sínu öðru ári sem sjálfstætt keppnislið. „Við höfum fundið mikinn árangur við þróun 2018-bísins og að því einbeitum við okkur nú. Þetta vrður algjörlega nýr bíll.

Við höfum dregið mikinn lærdóm af loftaflspakka núverandi bíls og jafnvægi. Því ætti að verða um talsverðar framfarir að ræða. Á kappaksturshelginni í Brasilíu munum við prófa ýmsa nýja vænghluta til að hjálpa okkur í þróun 2018-bílsins.

Renault er sem stendur í sjöunda sæti af 10 í keppninni um titil bílsmiða, einu stigi á undan Haas-liðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka