Einbeittu sér að endingu 2018-bílsins

Renault hefur birt myndir af 2018 bíl sínum en forsvarsmenn liðsins segja að tíminn í vetur hafi verið notaður til að auka á endingu bíls og vélar. Tæknistjórinn Bob Bell segir að það sé vandasamara verk en auka getu keppnisfáksins.

Renault tók talsverðum framförum í fyrra, einkum yfir sumartímann í kjölfar uppfærslu yfirbyggingar og vængja í breska kappakstrinum í Silverstone. Veikleikar háðu því þó vertíðina næstum út í gegn. Það vonast Bell að heyri sögunni til. „Endingartraust þarf að vera styrkleiki í ár. Að því þurfum við að einbeita okkur, og við höfum lagt okkur mjög fram í vetur við það,“ sagði hann við frumsýningu Renaultbílsins í gær.

„Til að bæta endingartraustið kemur ekkert minna til greina en fullkomnun. Allt sem fer í bílinn þarf að vera hannað og smíðað þannig að það standist hæstu kröfur. Öll vandamálin sem hrelltu okkur í fyrra þurfum við að afmá.“

Véladeildin í Viry við París hefur freistað þess að finna besta jafnvægið milli afls og endingu. Það er enn mikilvægara nú en áður þar sem hver ökumaður má aðeins brúka þrjár vélar alla vertíðina vítalaust. Segir Bell að vegna þessa hafi vélarhönnuðir Renault hafist handa við þróun og smíði 2018-vélarinnar þegar á árinu 2016. Hefur engin önnur vél frá Renault verið prófuð jafnmikið í vélarbekk og 2018-vélin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert