Reyndu allt til að halda Ricciardo

Daniel Ricciardo í Abu Dhabi, síðasta kappakstrinum með Red Bull.
Daniel Ricciardo í Abu Dhabi, síðasta kappakstrinum með Red Bull. AFP

Red Bullstjórinn Christian Horner segir lið sitt hafa gert allt sem í þess valdi var til að framlengja dvöl Daniel Ricciardo. Allt þótti stefna í það á miðju sumri en þá bárust óvænt fréttir af því að hann hefði ákveðið að fara til Renault.

Ricciardo réði sig til tveggja ára hjá Renault sem á nokkuð í land með að komast upp að hlið toppliðanna þriggja, þar á meðal Red Bull.

Pierre Gasly fékk stöðuhækkun og tekur við sæti Ricciardo hjá Red Bull eftir tvö ár með systurliðinu Toro Rosso.

Horner segir að Red Bull hafi ekki tekið samningi Ricciardo og Renault sem gefnum hlut, heldur haldið áfram telja honum hughvarf. „Við gengum í málið og held við höfum gert allt sem hægt var til að halda í hann. Hann sagði að málið snerist ekki um Red Bull, heldur hann sjálfan. Ég held hann hafi einlæglega talið sig þurfa nýjar áskoranir,“ sagði Horner við breska akstursíþróttaritið Autosport.

Ricciardo átti erfiða daga á 2018-keppnistíðinni og féll átta sinnum úr leik vegna bilana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka