Messi og Ronaldo hunsuðu hvor annan

Cristiano Ronaldo fékk verðlaunin sem knattspyrnumaður ársins 2016, en Lionel …
Cristiano Ronaldo fékk verðlaunin sem knattspyrnumaður ársins 2016, en Lionel Messi var ekki viðstaddur athöfnina í Zürich í kvöld. AFP

Lionel Messi og Cristiano Ronaldo höfðu báðir atkvæðisrétt í kjörinu á knattspyrnumanni ársins 2016, sem fyrirliðar sinna landsliða; Argentínu og Portúgals.

Samkeppnin hefur lengi verið hörð á milli þeirra tveggja um hvor sé besti knattspyrnumaður heims, og hugsanlega sögunnar, og margir af þeim sem tóku þátt í kjörinu voru með nöfn þeirra beggja á sínum lista yfir þrjá bestu knattspyrnumenn síðasta árs. Ronaldo hafnaði að lokum efstur í kjörinu en Messi varð í 2. sæti.

Hvorki Messi né Ronaldo sá hins vegar ástæðu til að setja sinn helsta keppinaut á sinn þriggja manna lista. Messi var með Luis Suárez efstan á blaði, Neymar í 2. sæti og Andrés Iniesta í 3. sæti. Þess má geta að þessir þrír leikmenn eru allir liðsfélagar Messis hjá Barcelona.

Ronaldo var með Gareth Bale í efsta sæti, Luka Modric í 2. sæti og Sergio Ramos í 3. sæti. Þeir eru einmitt allir liðsfélagar hans hjá Real Madrid.

Messi valdi þjálfara sinn hjá Barcelona, Luis Enrique, sem besta þjálfarann, en Ronaldo setti portúgalska landsliðsþjálfarann Fernando Santos í efsta sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert