Flugvélin sem hvarf af ratsjám yfir Ermarsundi, með knattspyrnumanninn Emiliano Sala og flugmann vélarinnar um borð, fyrir tæplega tveimur vikum er fundin. Fjölskylda knattspyrnumannsins hefur verið látin vita.
Sky Sports greinir frá því að leitarbátur hefði fundið brak vélarinnar á hafsbotni Ermarsunds.
„Ég get staðfest að hún er fundin,“ hefur AFP-fréttaveitan eftir talsmanni rannsóknarnefndar flugslysa í Bretlandi. Sala var á leið frá Frakklandi til Bretlands til að ganga til liðs við nýtt knattspyrnulið, Cardiff City, þegar vélin hvarf af ratsjám.
Sala var farþegi um borð í flugvél af gerðinni Piper PA-46 Malibu þegar hún hvarf af ratsjám um 20 kílómetra norður af Guernsey. Auk Sala var flugmaðurinn Dave Ibbotson um borð en hann hafði verið fenginn með skömmum fyrirvara til að fljúga vélinni.
Fréttin var uppfærð 21:56