Líkið er af Sala

Breska flug­slysa­nefnd­in greindi frá því í kvöld að líkið sem náðist úr braki flug­vél­ar­inn­ar sem brotlenti í Ermarsundi 21. janúar væri af argentínska knattspyrnumanninum Emiliano Sala.

Brak flug­vél­ar­inn­ar fannst á sunnu­dag en vegna slæms veðurs hef­ur ekki tek­ist að koma flak­inu á land. Sala, sem var 28 ára gam­all, var á leiðinni til síns nýja liðs, Car­diff City, þegar vél­in fórst úti fyr­ir Gu­erns­ey. Hann og flugmaður­inn, Dav­id Ib­bot­son, voru tveir um borð þegar hún fórst.

Í gær náði björgunarfólk einu líki úr brakinu, en ekki var búið að greina frá því hvort um væri að ræða Sala eða Ibbotson. Það var hins vegar staðfest í kvöld að um Sala sé að ræða.

Faðir Sala, Horacio Sala, sagði fyrr í vik­unni að eng­in von væri um að son­ur hans væri á lífi en fjöl­skyld­an bæri þá von í brjósti að bæði lík­in fynd­ust um borð í vél­inni.

Hvarf Emiliano Sala hefur valdið mikilli sorg.
Hvarf Emiliano Sala hefur valdið mikilli sorg. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert