Breska flugslysanefndin greindi frá því í kvöld að líkið sem náðist úr braki flugvélarinnar sem brotlenti í Ermarsundi 21. janúar væri af argentínska knattspyrnumanninum Emiliano Sala.
Brak flugvélarinnar fannst á sunnudag en vegna slæms veðurs hefur ekki tekist að koma flakinu á land. Sala, sem var 28 ára gamall, var á leiðinni til síns nýja liðs, Cardiff City, þegar vélin fórst úti fyrir Guernsey. Hann og flugmaðurinn, David Ibbotson, voru tveir um borð þegar hún fórst.
Í gær náði björgunarfólk einu líki úr brakinu, en ekki var búið að greina frá því hvort um væri að ræða Sala eða Ibbotson. Það var hins vegar staðfest í kvöld að um Sala sé að ræða.
Faðir Sala, Horacio Sala, sagði fyrr í vikunni að engin von væri um að sonur hans væri á lífi en fjölskyldan bæri þá von í brjósti að bæði líkin fyndust um borð í vélinni.