Barcelona, Juventus og Real Madrid gætu öll verið á leið í tveggja ára bann frá Evrópukeppnum á vegum UEFA. Það er ESPN sem greinir frá þessu en öll þrjú félögin hafa neitað að draga stuðning sinn við evrópska ofurdeild til baka.
Í síðasta mánuði tilkynntu tólf af stærstu liðum Evrópu að þau ætluðu sér að setja á laggirnar svokallaða ofurdeild með stærstu liðum Evrópu en fyrirkomulaginu átti að svipa til Meistaradeildar Evrópu.
Þetta fór ekki vel í stjórendur UEFA né stuðningsmenn í Evrópu og varð það til þess að flest liðanna ákváðu að draga sig út úr stofnun deildarinnar en til stóð að Arsenal, Chelsea, Liverpool, Manchester City, Manchester United og Tottenham yrðu öll hluti af stofnendahópi deildarinnar.
UEFA hefur náð samkomulagi um refsingu við öll ensku félögin, ásamt Atlético Madrid, og þá eru UEFA og forráðamenn Inter Mílanó nú í viðræðum um viðeigandi refsingu.
„Félagsliðin komu mis mikið að stofnun deildarinnar og við höfum skipt liðunum tólf upp í þrjá flokka með aðkomu þeirra að stofnun deildarinnar til hliðsjónar,“ sagði Aleksander Ceferin, forseti UEFA, í samtali við ESPN.
„Í fyrsta flokknum eru ensku félögin sem viðurkenndu sín mistök strax og drógu þátttöku sína til baka. Í flokki tvö eru Atlético Madrid og Inter sem fylgdu eftir fordæmi ensku liðanna.
Í þriðja flokknum eru svo félögin sem halda enn þá að jörðin sé flöt og að það verði eitthvað úr stofnun ofurdeildarinnar,“ bætti forsetinn við.