Úrslitaleikur Ítalíu og Englands á Evrópumóti karla í knattspyrnu fer fram í kvöld á Wembley í London. Mbl.is náði tali af Hjörvari Hafliðasyni, sem heldur uppi hlaðvarpsþættinum Dr. Football og er íþróttastjóri Viaplay Sport á Íslandi, en hann er nú staddur í London.
„Það er erfitt að útskýra hvernig stemningin er hérna en maður finnur svo sannarlega fyrir því að það séu komin 55 ár síðan eitthvað gerðist hérna,“ segir Hjörvar en England vann síðast stóran titill árið 1966 þegar liðið vann heimsmeistaratitilinn gegn Vestur-Þýskalandi.
„Ég held að þeir geti ekki endurgert þessa stemningu aftur. Þeir eru að ljúka 55 árum af sársauka og hugarfarið hjá þeim er að það sé núna eða aldrei. Ég veit ekki hvað gerist ef þetta kemur ekki núna,“ segir Hjörvar.
Hjörvar var staddur á bar í Shoreditch-hverfinu í austurhluta borgarinnar þar sem hann ætlaði að horfa á leikinn. „Það eru allir heimamenn orðnir vel ölvaðir enda búnir að vera að drekka síðan um hádegi,“ segir hann og bætir við að allt sé troðfullt á öllum börum. „Þú labbar ekki bara inn heldur þarf fólk að vera með pantað. Það eru einhverjir að labba hérna um að reyna að komast inn á bari í veseni, allt er löngu uppbókað,“ segir hann og nefnir að fólk safnist einnig saman á aðdáendasvæðum sem séu úti en það sé meira ætlað barnafjölskyldum.
Hjörvar segir að andinn í loftinu sé einstakur og margt fólk frá öllum landshlutum Bretlands sé samankomið. „Það eru margir sem vilja styðja ákveðna leikmenn sem eru í þeirra félagsliðum og því er sérstaklega margt fólk frá Norður-Englandi sem er oft miklir karakterar. Landsbyggðin er mætt til London.“
Hjörvar segist ekki hafa séð neina Ítali á vappi um London en um 60 þúsund áhorfendum er hleypt inn á Wembley í kvöld en ítalska knattspyrnusambandið hafði einungis þúsund miða til sölu.
Hjörvar spáir að England sigri 2-0. „Englendingarnir líta frábærlega út og við vonum bara það besta. Ég nenni ekkert að vera hérna ef Ítalir vinna þetta, þá verður stemningin fljót að verða súr.“