„Þurfum að standa okkur fyrir ykkur“

Harry Kane, fyrirliði Englands, ásamt Gareth Southgate þjálfara.
Harry Kane, fyrirliði Englands, ásamt Gareth Southgate þjálfara. AFP

Gareth Southgate, þjálfari enska landsliðsins í knattspyrnu, segir liðið skulda stuðningsmönnum þess að standa sig þegar England mætir Ítalíu í úrslitaleik Evrópumótsins í fótbolta á heimavelli sínum, Wembley, í kvöld.

Southgate sendi stuðningsmönnum Englands stutta kveðju á twitteraðgangi liðsins í gær.

„Sæl verið þið. Ég vildi bara taka mér smá tíma til þess að þakka ykkur öllum fyrir þann magnaða stuðning sem við höfum notið allt mótið.

Við vonumst til þess að hafa verið verðugir fulltrúar ykkar og vonum að þið hafið notið þess að sjá okkur spila,“ sagði hann.

England komst síðast í úrslitaleik stórmóts árið 1966, þegar það vann Þýskaland og varð heimsmeistari á heimavelli.

„Ég er mjög þakklátur öllum leikmönnunum og því ótrúlega starfsliði sem vinnur með mér fyrir það að hafa náð að komast í okkar fyrsta úrslitaleik í 55 ár.

En auðvitað vitum við það núna að við þurfum að standa okkur fyrir ykkur og við munum gera allt sem í valdi okkar stendur. Stuðningur ykkar og orka hefur lyft okkur upp, og ég veit að það verður raunin á sunnudag,“ sagði Southgate einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert