„Ég og strákarnir gáfum allt sem við áttum,“ sagði Harry Kane, landsliðsfyrirliði Englands í fótbolta, í samtali við BBC eftir tap gegn Ítalíu í úrslitaleik Evrópumótsins á Wembley. Úrslitin réðust í vítaspyrnukeppni.
„Það er verst af öllu að tapa í vítaspyrnukeppni. Þetta var ekki okkar kvöld en þetta er búið að vera mjög gott mót hjá okkur og við getum verið stoltir. Þetta verður sárt í langan tíma, en við erum á réttri leið og vonandi getum við farið enn lengra næst,“ bætti Kane við.
Hann fór yfir hvað klikkaði í kvöld gegn mjög sterku ítölsku liði.
„Við vorum að spila á móti mjög góðu liði. Við byrjuðum fullkomlega en lágum of mikið til baka og þeir voru mikið með boltann. Mér fannst við samt með stjórn á þessu því þeir sköpuðu sér ekki mikið. Þeir voru svo smá heppnir í föstu leikatriði og eftir það var þetta jafnt. Við fengum færi í framlengingunni, en þetta var ekki okkar kvöld.
Við ættum að vera virkilega stoltir sem hópur yfir því sem við höfum afrekað. Við erum allir sigurvegarar og því verður þetta sárt út ferilinn, en það er fótbolti. Við höfum bætt okkur frá því í Rússlandi og við viljum halda því áfram,“ sagði Harry Kane.