„Við erum með ástríðuna“

Aðdáendur ítalska landsliðsins.
Aðdáendur ítalska landsliðsins. AFP

Stærsti fótboltaleikur sumarsins hefst klukkan 19, úrslitaleikur Ítalíu og Englands á Evrópumóti karla í knattspyrnu. Englendingar vonast eftir því að úrslitaleikjaþurrð þeirra til 55 ára endi með sigri í kvöld, þeir kepptu síðast til úrslita í stórmóti á HM 1966, þá á heimavelli rétt eins og nú. 

Ítalir vonast þó til þess að spilla fjörinu með því að hreppa sigurinn úr höndum enskra. Þeir eru með feiknasterkt lið, samheldið og reynslumikið, sem hefur leikgleðina að vopni. Mun styttra er síðan Ítalía keppti til úrslita í stórmóti, það var árið 2006 í eftirminnilegum úrslitaleik HM þar sem Ítalía bar sigurorð af Frökkum í vítaspyrnukeppni. 

Danir halda með Ítölum

Björn Már Ólafsson er búsettur í Kaupmannahöfn. Hann er mikill áhugamaður um fótbolta og sér í lagi þann ítalska – raunar er hann einn helsti sérfræðingur hér á landi í ítalska boltanum og heldur úti hlaðvarpi þar um. 

Hann segir að stemningin sé fín í Kaupmannahöfn, þar haldi flestir með Ítölum samkvæmt óvísindalegri úttekt hans. 

„Þeir ganga alveg mjög sáttir frá borði held ég,“ segir Björn við mbl.is.

„Þeir eru búnir að sleikja sárin held ég og hlakka bara orðið til úrslitaleiksins. Mér sýnist nú svona flestir samt halda með Ítalíu í þessum leik.“

Danir náðu mögnuðum árangri á mótinu, hafandi misst sinn besta leikmann strax í fyrsta leik, Christian Eriksen, sem fór í hjartastopp og hneig niður á miðjum Parken-leikvanginum í Kaupmannahöfn. Þeir höfðu þó ekki erindi sem erfiði og töpuðu gegn sterku liði Englendinga í undanúrslitum með vítadómi í fyrri hluta framlengingar, sem vakti mikið umtal. 

Björn Már Ólafsson, lögfræðingur og áhugamaður um ítalska boltann.
Björn Már Ólafsson, lögfræðingur og áhugamaður um ítalska boltann. Ljósmynd/Facebook

Ítalir með alla Ítalíu á bak við sig, ólíkt því sem oft er

Björn Már fylgist vel með ítölskum fjölmiðlum og hann segir að allir Ítalir hvetji liðið áfram í kvöld. Það væri auðvitað ekki í frásögur færandi nema vegna þess að íbúar á sunnanverðri Ítalíu eru ekki vanir að fylkja sér að baki löndum sínum í bláu búningunum.

„Það eru aðallega þjóðfélagslegar ástæður fyrir því. Það hefur svona verið venjan að íbúar í norðrinu séu stoltari af þjóðerni sínu og svona fyrri til að kalla sig Ítala og fyllast þjóðarstolti. Þannig hefur þetta verið í alveg áratugi sko. En núna eru langflestir leikmenn liðsins frá suðurhlutanum þannig að það er svona almennari stuðningur við liðið en oft áður. Svona hefði þetta ekkert endilega verið fyrir svona 10 til 20 árum.“

Kvíðinn fyrir leiknum í kvöld

Andrea Völpi, Ítali sem búsettur er á Íslandi, heldur með Ítölum rétt eins og Björn Már, sem flatmagaði á danskri strönd þegar mbl.is ræddi við hann, en ólíkt honum er Andrea ansi stressaður fyrir leiknum. Í samtali við mbl.is segist hann varla vita hvort hann eigi að sitja eða standa. 

„Ég fylgdist ekkert með undankeppninni en svo hef ég horft á alla leiki liðsins í mótinu sjálfu til þessa. Ég held að þeir verði að reyna að reiða sig á liðsandann þar sem Englendingar eru með fleiri stjörnur í sínu liði eins og Harry Kane og Raheem Sterling en við erum með ástríðuna.“

Andrea er staddur á Seyðisfirði þar sem hann segist ætla að horfa á leikinn í kvöld. Hann segist þó halda að sínir menn taki þetta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert