„Finnst sem maginn hafi verið rifinn úr mér“

Gareth Southgate, þjálfari Englands.
Gareth Southgate, þjálfari Englands. AFP

Gareth Southgate, þjálfari enska karlalandsliðsins í knattspyrnu, segist vilja stýra liðinu áfram og koma því á HM 2022 í Katar, sem fer fram eftir tæplega eitt og hálft ár.

„Mér finnst sem maginn hafi verið rifinn úr mér. Er ég sit hér í dag myndi ég samt vilja fara með liðið til Katar,“ sagði Southgate, sýnilega þreyttur og leiður, á blaðamannafundi í dag.

England tapaði í vítaspyrnukeppni gegn Ítalíu í úrslitum Evrópumótsins á Wembley í gærkvöldi og vann þar með til silfurverðlauna á mótinu.

Samningur Southgates nær fram yfir HM 2022 í Katar og sagðist hann vilja hvílast aðeins áður en hann hugaði að því að framlengja samning sinn.

„Við þurfum auðvitað að komast til Katar. Ég þarf smá tíma til þess að horfa aftur á leik gærkvöldsins og fara yfir mótið.

Ég þarf að hvíla mig. Það er stórkostleg upplifun að leiða þjóð sína á mótum sem þessu en hún tekur sinn toll.“

Enska knattspyrnusambandið vill gjarna framlengja samning Southgates og sagði hann að vilji sinn til þess að bíða aðeins með samningaviðræður tengdist ekki peningum og að sér þætti það frábært að njóta stuðnings sambandsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert