„Það var kominn tími á þetta hjá mér“

Roberto Mancini fagnar sigrinum á EM ásamt Leonardo Bonucci í …
Roberto Mancini fagnar sigrinum á EM ásamt Leonardo Bonucci í gærkvöldi. AFP

Roberto Mancini, þjálfari ítalska karlalandsliðsins í knattspyrnu, sagðist eftir sigur liðsins á Evrópumótinu í gærkvöldi hafa átt það inni að vinna loks titil eftir að hafa tvisvar lent í öðru sæti með landsliðum Ítalíu á stórmótum.

„Það var kominn tími á þetta hjá mér. Ég var mjög heppinn að vera hluti af frábæru liði árið 1990 og mögnuðu U21-árs landsliði. Þrátt fyrir þá staðreynd að við vorum betra liðið töpuðum við í bæði skiptin í vítaspyrnukeppni,“ sagði Mancini eftir leikinn í gærkvöldi.

Ítalía tapaði í úrslitum gegn Vestur-Þýskalandi á HM 1990 og tapið með U21-árs landsliðinu sem hann vísar til var á EM 1986, þegar liðið laut í lægra haldi fyrir Spáni.

Mancini felldi nokkur tár eftir sigurinn í gærkvöldi og sagði þau vera fyrir alla Ítalíu.

„Þau komu vegna tilfinninganna sem brjótast fram þegar maður afrekar eitthvað stórkostlegt. Tilfinningin að sjá leikmennina fagna og stuðningsmennina í áhorfendastúkunni.

Að sjá allt sem við höfum náð að skapa, alla vinnuna sem við höfum lagt í þetta síðustu þrjú ár, en sérstaklega síðustu 50 daga, sem hafa verið mjög erfiðir,“ sagði hann og hrósaði stórkostlegum liðsanda ítalska liðsins þessa 50 daga í hástert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert