„Þetta hvílir á mínum herðum“

Gareth Southgate huggar Bukayo Saka eftir að hann klúðraði síðustu …
Gareth Southgate huggar Bukayo Saka eftir að hann klúðraði síðustu vítaspyrnu Englendinga í gærkvöldi. AFP

Gareth Southgate, þjálfari enska karlalandsliðsins í knattspyrnu, tók fulla ábyrgð á tapi liðsins í vítaspyrnukeppni í úrslitaleik Evrópumótsins gegn Ítalíu í gær þar, sem hann hafi sjálfur valið spyrnumennina.

„Þetta hvílir á mínum herðum. Ég ákvað hverjir myndu taka víti og byggði það á því sem þeir höfðu sýnt á æfingum,“ sagði Southgate eftir leikinn í gær.

Hann sagði alla sem koma að enska liðinu standa saman.

„Það er enginn einsamall í þessu. Við erum búnir að vinna leiki saman sem lið og við tökum það allir á okkur í sameiningu að hafa ekki getað unnið þennan leik.

Hvað vítaspyrnurnar varðar voru þær mín ákvörðun og eru á mína ábyrgð,“ bætti hann við.

Southgate fannst mikilvægt að benda á að ekki skuli kenna neinum leikmanna hans um eitt né neitt.

„Það ætti ekki að álasa þeim. Þeir hafa gert meira en nokkurt annað enskt lið í yfir 50 ár.“

Þessi skilaboð Southgate hafa því miður ekki skilað sér til fjölda stuðningsmanna Englands enda hafa þremenningarnir ungu sem klúðruðu vítaspyrnum sínum í vítakeppninni, þeir Marcus Rashford, Jadon Sancho og Bukayo Saka, orðið fyrir hræðilegu kynþáttaníði á samfélagsmiðlum í kjölfarið, en allir eru þeir dökkir á hörund.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert