Evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, mun ekki lögsækja Barcelona, Juventus og Real Madrid fyrir þátttöku þeirra í stofnun fyrirhugaðrar ofurdeildar. Það er Sky Sports sem greinir frá þessu.
UEFA höfðaði mál gegn félögunum þremur eftir að þau neituðu að láta af áformum sínum um stofnun evrópskar ofurdeildar en félögin báru fyrir sig að það væri ekkert ólöglegt við stofnun deildarinnar.
UEFA ákvað að endingu að láta málið niður falla og þá þurfa þau félög, sem áttu sinn þátt í fyrirhugaðri stofnun deildarinnar, ekki að greiða neina sekt að því er fram kemur í frétt Sky Sports.
Arsenal, Chelsea, Liverpool, Manchester City, Manchester United, Tottenham, Atlético Madrid, AC Milan og Inter Mílanó voru hin níu stofnfélögin ásamt Barcelona, Juventus og Real Madrid en UEFA sektaði félögin níu upphaflega um samtals 15 milljónir evra.
„Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að koma í veg fyrir stofnun evrópskrar ofurdeildar,“ segir í tilkynningu UEFA.
„Við munum beita öllum brögðum og málsókn ef til þess kemur,“ segir meðal annars í tilkynningunni.