Thibaut Courtois, markvörður Real Madrid og belgíska landsliðsins í knattspyrnu, gagnrýndi Evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, harðlega í viðtali við fjölmiðlamenn í gær eftir 1:2-tap Belga gegn Ítalíu í leik um 3. sæti Þjóðadeildar UEFA á Allianz-vellinum í Túrín í gær.
Courtois var í byrjunarliði Belga í gær en Roberto Martínez, þjálfari Belga, gerði nokkrar breytingar á byrjunarliði sínu frá 2:3-tapinu gegn Frakklandi í undanúrslitum keppninnar í síðustu viku.
Margir leikmenn voru ósáttir með að þurfa spila leikinn um 3. sæti Þjóðadeildarinnar enda mikið álag á knattspyrnumenn í Evrópu í dag.
„Eina ástæðan fyrir því að við erum að spila þessa leiki er sú að UEFA fær aukapeninga í vasann,“ sagði Courtois.
„Þjálfarar beggja liða gerðu fjölda breytinga sem segir manni bara að þetta eru of margir leikir á tímabili. UEFA byrjaði með nýja Evrópukeppni, Sambandsdeildina, til þess að fá ennþá meiri pening í vasann.
Þeir voru brjálaðir þegar félög innan Evrópu ætluðu að stofna svokallaða ofurdeild en svo eru þeir engu skárri. Þeir hafa ekki efni á að gagnrýna stofnendur ofurdeildarinnar því það eina sem UEFA hugsar um eru peningar,“ bætti Courtois við.