Stjörnur minnast „kóngsins“ Pelé

Neymar heldur á fána með andliti Pelé á HM í …
Neymar heldur á fána með andliti Pelé á HM í Katar. AFP/Pablo Porciuncula

Brasilíski framherjinn Neymar segir að landi hans Pelé, sem lést í gær, hafi verið „kóngur“ sem öllu breytti. 

Pelé, sem er af mörgum talinn besti knattspyrnumaður allra tíma, lést í gær, 82 ára gamall. Þriggja daga þjóðarsorg er hafin í Brasilíu vegna fráfalls hans. 

„Áður en Pelé kom fram á sjónarsviðið þá var fótbolti bara íþrótt,“ skrifaði Neymar á Instagram, að því er BBC greindi frá.  

„Pelé breytti öllu. Hann breytti fótbolta í listgrein, í afþreyingu. Hann gaf hinum fátæku rödd og svörtu fólki.“

Neymar bætti við: „Ofar öllu þá kom hann Brasilíu á sjónarsviðið. Fótbolti og Brasilía fóru ofar á stallinn þökk sé kónginum! Hann er farinn en töfrar hans munu lifa áfram.“

View this post on Instagram

A post shared by NJ 🇧🇷 (@neymarjr)

Franski framherjinn Kylian Mbappe lýsti Pelé einnig sem „konungi fótboltans“ og bætti við að „arfleið hans gleymist aldrei“.

Portúgalinn Cristiano Ronaldo og argentíski heimsmeistarinn Lionel Messi minntust Pelé einnig. „Að kveðja hinn eilífa konung Pelé á hefðbundinn hátt verður aldrei nóg til að lýsa sársaukanum sem umlykur fótboltaheiminn núna,“ sagði Ronaldo.

View this post on Instagram

A post shared by Leo Messi (@leomessi)

Pelé setti heimsmet með því að skora 1.291 mark í 1.363 leikjum á 21 árs ferli, þar á meðal 77 mörk í 92 leikjum fyrir brasilíska landsliðið.

Hann er eini leikmaðurinn sem hefur unnið HM í fótbolta þrívegis, eða árin 1958, 1962 og 1970. Hann var kjörinn leikmaður aldarinnar af FIFA árið 2000.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert