Alfreð í fámennan hóp íslenskra fótboltamanna

Alfreð Finnbogason hefur komið víða við á ferlinum sem atvinnumaður.
Alfreð Finnbogason hefur komið víða við á ferlinum sem atvinnumaður. mbl.is/Hari

Alfreð Finnbogason komst í fámennan hóp íslenskra knattspyrnumanna í dag þegar hann skoraði mark Lyngby gegn Nordsjælland í dönsku úrvalsdeildinni og tryggði liði sínu jafntefli, 1:1.

Þetta var fyrsta mark Alfreðs í Danmörku og þar með varð hann þriðji Íslendingurinn í sögunni til að skora mark í deildakeppni átta landa.

Alfreð hafði áður skorað í deildakeppni á Íslandi, í Belgíu, Svíþjóð, Hollandi, Spáni, Grikklandi og Þýskalandi.

Enginn íslenskur knattspyrnumaður hefur skorað í fleiri löndum en áður höfðu Eiður Smári Guðjohnsen og Viðar Örn Kjartansson skorað mörk í deildakeppnum átta landa.

Um leið náði Alfreð þeim áfanga að spila sinn 300. deildaleik á ferlinum, í þessum átta löndum.

Auk þess var markið hans 140. mark í deildakeppni. Þar af eru 110 mörk í deildakeppni erlendis og aðeins Heiðar Helguson (133) og Viðar Örn Kjartansson (113) hafa skorað fleiri deildamörk fyrir erlend félög. 

Alfreð skoraði 30 mörk á Íslandi, tvö fyrir Augnablik og 28 fyrir Breiðablik, áður en hann hélt í atvinnumennsku að loknu keppnistímabilinu 2010.

Markið var langþráð fyrir Alfreð sem síðast skoraði deildamark 12. febrúar 2022, eða fyrir einu ári og einni viku betur, þá fyrir Augsburg í Þýskalandi. Hann var lengi frá vegna meiðsla í kjölfarið en hóf að spila með Lyngby seint á síðasta ári.

Alfreð Finnbogason fagnar markinu gegn Nordsjælland ásamt Kolbeini Birgi Finnssyni …
Alfreð Finnbogason fagnar markinu gegn Nordsjælland ásamt Kolbeini Birgi Finnssyni sem spilaði sinn fyrsta leik fyrir Lyngby. Ljósmynd/LyngbyBoldklub
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka