Dramatík er Juventus fór í úrslit

Arkadiusz Milik skoraði markið mikilvæga fyrir Juventus í gærkvöldi.
Arkadiusz Milik skoraði markið mikilvæga fyrir Juventus í gærkvöldi. AFP/Marco Bertorello

Juventus er búið að tryggja sér sæti í úrslitum ítölsku bikarkeppninnar í knattspyrnu karla. Það varð ljóst í gærkvöldi þegar liðið tapaði 2:1 fyrir Lazio í síðari leik liðanna og vann einvígið samanlagt.

Juventus vann fyrri leikinn á heimavelli 2:0 og einvígið því 3:2. Í úrslitum mætir liðið annaðhvort Atalanta eða Fiorentina, sem mætast í öðrum leik sínum í Bergamo í kvöld. Fiorentina vann fyrri leikinn 1:0.

Í leik gærkvöldsins í Rómarborg náði Lazio forystunni eftir aðeins tólf mínútna leik þegar Valentin Castellanos skoraði.

Hann var svo aftur á ferðinni í upphafi síðari hálfleiks og staðan var þá orðin jöfn, 2:2, samanlagt.

Arkadiusz Milik minnkaði hins vegar muninn fyrir Juventus sjö mínútum fyrir leikslok og tryggði Juventus um leið sæti í bikarúrslitum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert