Miklar breytingar á 25 árum

Blönduð sveit unglinga i dansi í undankeppni.
Blönduð sveit unglinga i dansi í undankeppni. Ljósmynd/Kristinn Arason

„Útbreiðsla hópfimleika í Evrópu fer vaxandi með hverju árinu sem líður. Á þessu móti sjáum við til dæmis að Ítalir koma sterkir inn með yngri landslið sín og eins eru greinilegar framfarir hjá Hollendingum um þessar mundir,“ sagði Ásta Þyrí Emilsdóttir, ein þriggja þjálfara íslenska kvennalandsliðsins í hópfimleikum á Evrópumeistaramótinu sem hófst í Portúgal í gær.

Ásta Þyrí hefur lengi fylgst með öllu því nýjasta í hópfimleikum, fyrst sem keppandi í fremstu röð í Evrópu og hin síðari ár sem þjálfari, bæði landsliða og félagsliða. Hún segir þróun og útbreiðslu íþróttarinnar mikla og hraða og þeir fremstu í Evrópu í dag geti gert mun erfiðari æfingar en nokkurn hafi dreymt um fyrir fáeinum árum.

Um þessar mundir er aldarfjórðungur liðinn síðan fyrsta Evrópumótið í hópfimleikum fór fram. Keppendum og keppnisþjóðum hefur fjölgað jafnt og þétt. Til að mynda eru þátttökuþjóðir fleiri nú en á EM fyrir tveimur árum.

„Ef maður skoðar til dæmis stökkin sem voru gerð á mótinu fyrir 25 árum og ber þau saman við það sem er að gerast í dag gæti maður haldið að um tvær mismunandi íþróttagreinar væri að ræða,“ sagði Ásta Þyrí.

„Sömu sögu er að segja um dansinn; hann er býsna ólíkur í dag og fyrir 25 árum. Ég hætti keppni fyrir nokkrum árum. Bara síðan hafa kröfurnar sem gerðar eru til dæmis í stökkunum aukist til muna. Þróunin mun tvímælalaust halda áfram á næstu árum,“ sagði Ásta Þyrí og bætir við að kröfurnar muni ekki minnka eftir því sem þátttökuþjóðum fjölgi. Mótið nú í Portúgal er að slá öll met og fyrirséð að þátttökuþjóðum fjölgi enn meira á EM í Danmörku að tveimur árum liðnum. Á því móti stendur til að gefa landsliðum utan Evrópu, s.s. frá Bandaríkjunum, Brasilíu, Mexíkó og Ástralíu, tækifæri til að vera með sem gestir.

„Ég held að ein hugsunin með því að hleypa þjóðum utan Evrópu inn á mótið sé að það auðveldi leiðina að fyrsta heimsmeistaramótinu í hópfimleikum. Nú þegar er mótið orðið mjög stórt og umfangsmikið og orðið að meiriháttar framkvæmd,“ sagði Ásta Þyrí.

Sjá allt viðtalið við Ástu Þyrí í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert