Í viðræðum við Real Madrid

Raphaël Varane gekk til liðs við Real Madrid árið 2011.
Raphaël Varane gekk til liðs við Real Madrid árið 2011. AFP

Raphaël Varane er í viðræðum við spænska knattspyrnufélagið Real Madrid um nýjan samning.

Það er spænski miðillinn AS sem greinir frá þessu en núverandi samningur franska landsliðsmannsins rennur út sumarið 2022.

Varane hefur verið orðaður við brottför frá Real Madrid að undanförnu þar sem viðræður um nýjan samning hafa ekki borið árangur hingað til.

Sergio Ramos, fyrirliði Real Madrid, mun að öllum líkindum yfirgefa spænsku höfuðborgina í sumar þegar samningur hans rennur út og töldu sumir að Varane myndi fara líka.

Varane gekk til liðs við Real Madrid frá Lens í Frakklandi sumarið 2011 og hefur verið lykilmaður í liðinu undanfarin ár.

Hann á að baki 352 leiki fyrir félagið í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað sautján mörk. Þá á hann að baki 71 landsleik fyrir Frakka en hann er 27 ára gamall.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka