Landsmót hestamanna hófst í dag, en þetta mun vera í fyrsta skipti í fjögur ár sem Landsmót er haldið.
Forkeppni í barna og unglingaflokki fór fram á keppnisvellinum en á kynbótavellinum hlutu fjögurra, fimm og sex vetra hryssur svokallaðan fordóm, kynbótasýngarnar eru ekki síður vinsælar meðal þeirra sem sækja Landsmótin frá hinum ýmsu heimshornum.
Gjaldgengir í barnaflokk eru knapar á aldrinum tíu til þrettán ára. Í unglingaflokki keppa knapar á aldrinum fjórtán til sautján ára.
Einungis tiltekinn fjöldi fær sæti á Landsmóti, en í sumar hafa hestamannafélög landsins staðið fyrir svokölluðum úrtökumótum. Þau pör, knapi og hestur, sem náð hafa bestum árangri á þeim mótum tryggja sér sæti á Landsmóti, og því óhætt að orða það svo að hér sé um að ræða mót þeirra sterkustu.
Á Landsmóti er fyrst keppt í forkeppni. Efstu þrjátíu pörin komast svo áfram í milliriðil. Þá sýna þau aftur og efstu fimm komast svo áfram í A-úrslit, og næstu fimm þar á eftir í B-úrslit. B-úrslit fara fram fyrst og sigurvegari þeirra á þess kost að keppa á stóra sviðinu í A-úrslitum.
Eftir forkeppni í barnaflokki standa leikar þannig að Kristín Eir Hauksdóttir situr í efsta sæti með einkunnina 8,8 á hestinum Þyt frá Skáney. Apríl Björk Þórisdóttir og hesturinn Sikill frá Árbæjarhjáleigu fylgja þar fast á eftir með einkunnina 8,7 og í þriðja sæti er Þórhildur Helgadóttir ásamt Kóng frá Korpu, en þau hlutu 8,68.
Í unglingaflokki er Svandís Aitken Sævarsdóttir efst, á merinni Fjöður frá Hrísakoti, en þær hlutu einkunnina 8,7. Matthías Sigurðsson og Bragur frá Ytra-Hóli eru í öðru sæti með 8,698 og Hekla Rán Hannesdóttir hlaut þriðju hæstu einkunnina í þeim flokki á hestinum Grím frá Skógarási.
Ásmundur Einar Daðason barnamálaráðherra mætti í brekkuna að fylgjast með ungviðinu leika listir sínar í dag og birti hann myndir frá mótinu á facebook síðu sinni.
Hann sagði það gaman að fylgjast með öflugu ungu fólki sem eigi framtíðina fyrir sér í hestamennskunni.