Hjörtur Bergstað, formaður hestamannafélagsins Fáks, lætur sig ekki vanta á Landsmót hestamanna, en hann kveðst sérstaklega spenntur að fylgjast með sínum félagsmönnum.
„Við erum með mjög góðan hóp frá Fák. Margir knapar í barna- og unglingaflokki eru komnir í milliriðil og svo eigum við allavega tvo af efstu fjórum í B-flokki meistaraflokki eftir forkeppni.“
Veðrið í dag hefur verið kjörið fyrir hestamannamót. Áhorfendur una vel í brekkunum, sólin glampar á bógum gæðinganna í brautinni og hæg vindátt veitir hrossunum smá kælingu að lokinni sýningu.
Hjörtur þorir ekki að spá fyrir um úrslit í meistaraflokkunum, enda geti allt gerst.
Dóttir hans keppti í gær en lenti í því óhappi að hesturinn heltist hjá henni. „Svona brostnar vonir eru einmitt partur af þessu líka.“
Knapar og hestar hafa staðið í ströngum undirbúningi fyrir stóra sviðið á Landsmóti í fleiri mánuði, en svo stendur allt og fellur með því hvort þeim takist að sýna sínar bestu hliðar á þeim fimm mínútum sem þau hafa fyrir framan dómarana.
Matthías Sigurðsson Fáksmaður er í öðru sæti í unglingaflokki eftir forkeppni gærdagsins og keppir því í milliriðli á morgun. Hann segir sýninguna hafa gengið vel en kveðst þó eiga nóg inni.
Hann keppir á hestinum Brag frá Ytra Hóli og hlutu þeir 8,7 í einkunn í gær. Efstu fjögur sætin í þeim flokki eru öll með 8,7, en aukastafir skilja þar á milli.
„Þetta er rosalega sterkur unglingaflokkur, við erum eiginlega öll í sömu tölum.“
Matthías stefnir ótrauður á atvinnumennsku í hestaíþróttum. Er þetta í þriðja skipti sem hann keppir á Landsmóti, þrátt fyrir ungan aldur, en hann keppti tvisvar í barnaflokki og nú keppir hann í fyrsta skipti í unglingaflokki.
Hann unir vel í brekkunni í dag þegar hann er ekki sjálfur á leið í braut. Aðspurður hvernig hann telji að úrslitin fari í A flokki gæðinga, B flokki gæðinga og Tölti meistara spáir hann þeim Glúm frá Dallandi og Sigurði Vigni Matthíassyni sigri í A-flokki gæðinga, en Sigurður Vignir er faðir Matthíasar.
Í B-flokki spáir hann þeim Árna Birni Pálssyni og Ljósvaka frá Valstrýtu , sigri, en þeir leiða eftir forkeppni með einkunnina 8,9.
Þá þótti honum erfiðast að spá fyrir um töltið en ákvað samt að Árni Björn tæki það líklega líka, á hestinum Ljúf frá Torfunesi.