Vogun vinnur vogun tapar

Eyjamenn mættu Aftureldingu í dag.
Eyjamenn mættu Aftureldingu í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kristinn Guðmundsson, aðstoðarþjálfari ÍBV, kíkti í viðtal við blaðamann mbl.is eftir leik ÍBV og Aftureldingar sem fram fór í Vestmannaeyjum í dag. 

„Ætli þetta hafi ekki verið þokkalega sanngjarnt. Við mætum ekki nógu klárir til leiks og þurfum því að elta og gefa þeim blóð á tennurnar og tækifæri til að komast í sinn ryþma. Við lögum það svo en erum klaufar að mörgu leyti að klára þetta ekki, vogun vinnur vogun tapar.“

Sigtryggur Daði Rúnarsson byrjaði leikinn af krafti og var sá eini sem skoraði hjá heimamönnum í upphafi leiks.

„Hann hélt okkur algjörlega uppi í byrjun leiksins og var frábær í fyrri hálfleik. Við ætluðum að vera voðalega klókir í byrjun seinni hálfleiks og hvíla hann aðeins en komum honum svo ekki aftur inn í leikinn. Aðrir voru búnir að taka yfir sem gengur og gerist í svona liðum. Þetta hefði getað farið í allar áttir.“

Björn Viðar Björnsson kom ágætlega inn á þeim kafla sem Eyjamenn komu sér aftur inn í leikinn og varði vel þegar ÍBV var að síga fram úr. 

„Við erum með tvo markmenn sem eru lið inni í liðinu og við reynum að kreista eins mikið úr þeim og við getum.“

Eyjamenn hafa verið að endurheimta menn úr meiðslum og eru að mynda breidd.

„Við erum aðeins að mjatla í því, stundum gengur það vel og stundum ekki eins vel, mér fannst við alveg nógu ferskar í restina til að klára þetta. Það er að myndast svona hlutverkaskipan hjá okkur sem við hefðum viljað fá á hreint aðeins fyrr.“

„Við erum bara að miða á úrslitakeppnina, við getum enn þá endað í 8. sæti eða farið alla leið upp í það þriðja,“ sagði Kristinn sem er spenntur að sjá hvernig úrslitakeppnin mun spilast í nýja fyrirkomulaginu.

„Þetta verður ótrúlega spennandi, glænýtt format í þetta skipti. Við vitum að þetta er eins og í Evrópukeppninni og það geta allir unnið alla í því. Þau lið sem hafa unnið sér inn bestu stöðuna í deildinni, þetta er blóðugast fyrir þau,“ sagði Kristinn að lokum en leikið er heima og að heiman og samanlögð markatala mun segja til um hvort liðið fari áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert