Selfoss og Jerusalem Ormož gerðu 31:31 jafntefli í fyrri leik sínum í 2. umferð Evrópubikars karla í handbolta á Selfossi í kvöld. Selfoss skoraði síðustu þrjú mörkin í leiknum á rafmögnuðum lokamínútum í Sethöllinni.
Eftir rólega byrjun tóku Selfyssingar af skarið og náðu þriggja marka forskoti. Staðan var 8:5 um miðjan fyrri hálfleikinn en þá kom afleitur kafli hjá Selfyssingum þar sem gestirnir gerðu 1:6 áhlaup á átta mínútna kafla og breyttu stöðunni í 9:11. Selfyssingar tóku leikhlé og fóru yfir málin en hlutirnir voru ekki að ganga nógu vel upp á lokamínútum fyrri hálfleiks þar sem heimamenn voru manni færri og tóku Rasimas úr markinu í sókninni. Ormož skoraði tvö auðveld mörk í tómt markið og hélt tveggja marka forskoti inn í leikhléið, 14:16.
Seinni hálfleikurinn var stórskemmtilegur. Liðin höfðu hrist úr sér hrollinn og keyrðu upp hraðann, Slóvenarnir voru þolinmóðir í sókninni, klipptu mikið fyrir utan og biðu eftir að finna glufu, sem þeir fundu yfirleitt. Þegar leið á seinni hálfleikinn var Ormož með þriggja marka forskot sem þeir gátu helst þakkað sinni lipru vinstri skyttu, Tilen Kosi. Hann átti frábæran leik.
Það stendur einhvers staðar skrifað að handboltaleikur sé ekki búinn fyrr en hann er búinn. Ormož leiddi 28:31 þegar rúmar tvær mínútur voru eftir og ekkert í spilunum sem benti til þess að þeir myndu slá af. Selfyssingar voru hins vegar staðráðnir í að svara fyrir sig og spiluðu frábæra vörn út um allan völl. Ormož missti boltann klaufalega þrjár sóknir í röð og Selfyssingar refsuðu grimmilega fyrir það. Það var viðeigandi að Einar Sverrisson, sem var besti maður Selfoss í kvöld, skoraði jöfnunarmarkið á lokasekúndunni.
Selfyssingar voru vel studdir á heimavelli í kvöld og áhorfendafjöldinn á Selfossi var sá mesti síðan fyrir kófið. Þeir vínrauðu fá ekki sama stuðning að viku liðinni í Slóveníu en eftir leikinn í kvöld sjá þeir að möguleikarnir eru góðir, ef þeir standa vörnina betur, en hún var helsti Akkilesarhæll Selfoss í kvöld.
Einar Sverrisson og Alexander Már Egan voru markahæstir Selfyssinga í kvöld með 8 mörk, en Einar skoraði tvö af vítalínunni. Vilius Rasimas varði átta skot í marki Selfoss.
Hjá Ormož var Tilen Kosi markahæstur með 8 mörk og Martin Hebar skoraði 6. Tomislav Balent varði 8/1 skot og Alen Skledar varði 7.
Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu hér á mbl.is og er hún hér fyrir neðan.