Áfram svona naglbítur

Gunnar Magnússon
Gunnar Magnússon Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar var skælbrosandi eftir dramatískan sigur á Val í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handbolta. Spurður út í leikinn sagði Gunnar þetta:

„Frábær leikur og frábær skemmtun. Þetta gat endað hvorumegin sem var. Við vorum sterkari síðustu 5 mínúturnar og það munaði rosalega um markvörslurnar frá Jovan Kukobat. Síðan náðum við að dreifa álaginu vel þannig að menn voru ferskir og óþreyttir í lokin."

Hver er lykillinn að þessum lokakafla hjá ykkur?

„Jovan nær mikilvægum vörslum sem við náðum að notfæra okkur í hröðum og góðum sóknum. Við höfðum kraftinn þegar Þorsteinn og Birgir Steinn voru búnir að fá hvíld. Þetta féll okkar megin í þetta skiptið."

Nú fara valsmenn til Rúmeníu og spila þar á sunnudag. Á sama tíma er Afturelding í átta daga fríi til að undirbúa sig fyrir leikinn á Hlíðarenda. Það hlýtur að vera plús fyrir Aftureldingarmenn að þeir séu að berjast á tveimur vígstöðvum á sama tíma?

Þorsteinn Leó Gunnarsson sækir að marki Vals í kvöld.
Þorsteinn Leó Gunnarsson sækir að marki Vals í kvöld. mbl.is/Arnþór

„Já en á sama tíma öfunda ég þá af því að vera spila í undanúrslitum í Evrópukeppni. Það er líka áskorun fyrir okkur þjálfarana að halda mönnum í fókus í átta daga pásu. Ég hefði sjálfur viljað vera í þeirra stöðu og mér finnst það frábært fyrir íslenskan handbolta.

En þeir glíma við sitt og við glímum við okkar og við þurfum bara að hugsa um okkur. Við vitum að þeir mæta dývitlausir í næsta leik á sínum heimavelli."

Það sýndi sig í kvöld hversu mikilvægt það er að hafa Þorstein Leó heilan í þessari úrslitakeppni ekki satt?

Það skiptir öllu máli að hann sé að koma svona vel til baka. Á meðan við misstum hann þá stigu aðrir upp eins og Bergvin, Blær og Birgir Steinn sem geta verið í hans stöðu og það sem við fáum út úr þessu er aukin breidd sem er frábært þar sem þessir leikir eru svo hraðir."

Eitthvað sem Afturelding þarf að laga fyrir næsta leik?

„Við getum alltaf gert betur og við þurfum að skoða þennan leik vel og laga eitt og annað. Við vitum alveg hvað býður okkar í Valsheimilinu og þeir verða brjálaðir þar. Við vonum að þetta einvígi verði áfram svona naglbítur."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka